Frá og með næsta ári mun hugbúnaðarfyrirtækið Apple sýna frá öllum leikjum MLS-deildarinnar í fótbolta. Hægt verður að horfa á alla leiki í öllum mögulegum Apple-tækjum. Þá verða ýmiskonar tilboð, árspassar og fleira því um líkt í boði.
MLS er efsta deild fótboltans í Bandaríkjunum. Líkt og í öðrum íþróttum þar í landi falla lið hvorki né komast upp um deild. Til að taka þátt í MLS-deildinni þurfa lið að kaupa sig inn í deildina og má áætla að nýr sjónvarpsréttur geri það töluvert dýrara en að sama skapi töluvert hagstæðara.
Every club. Every match. Everywhere. Coming to the @AppleTV app, 2023.
— Major League Soccer (@MLS) June 14, 2022
Details: https://t.co/vkrUm1HzVN pic.twitter.com/jxPBI9aqMn
Í deildinni spila nú þrír íslenskir leikmenn: Arnór Ingvi Traustason með New England Revolution, Róbert Orri Þorkelsson með CF Montréal og Þorleifur Úlfarsson með Houston Dynamo. Þá varð Guðmundur Þórarinsson meistari með New York City á síðustu leiktíð.
Til þessa hefur sjónvarpssamningur deildarinnar ekki verið mikils virði ef miðað er við stærstu íþróttir Bandaríkjanna. Hugbúnaðarrisinn er hins vegar til í að skuldbinda sig til tíu ára og borga fyrir það tæplega 332 milljarða íslenskra króna.
Það sem gerir samninginn enn merkilegri er að Apple mun ekki endilega eiga einkarétt á sýningarréttinum. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á deildina en mögulega mun þetta trekkja fleiri stjörnur að. Hver veit nema Lionel Messi taki tilboði David Beckham og spili fyrir Inter Miami fyrr en síðar.