Ábendingar borist um skort á viðhaldi
Vísi bárust ábendingar þess efnis að vegurinn, sem liggur upp að útsýnispallinum á Bolafjalli, væri lokaður sökum skorts á viðhaldi og að Landhelgisgæslan, sem er með samning við NATO um umsjá vegarins, hafi ekki sinnt því hlutverki sem skyldi. Því kæmust akandi ekki upp að útsýnispallinum.
Aðspurður út í gagnrýni á viðhald vegarins sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, að erfiðlega hafi gengið að gera við veginn í vetur sökum skorts á efni á Vestfjörðum og hann væri því lokaður. Hins vegar væri gæslan í góðu samstarfi við Vegagerðina og bæjaryfirvöld í Bolungarvík.
Öryggismál ekki enn frágengin
Vísir hafði samband við Jón Pál Hreinsson, bæjarstjóra Bolungarvíkur, sem sagði að það ætti eftir að hefla, rykbinda og stika veginn áður en umferð ferðamanna væri hleypt upp fjallið. Það væri þó ekki aðalástæðan fyrir lokun vegarins.

Vegurinn væri fyrst og fremst lokaður af því það ætti eftir að ganga betur frá öryggismálum á útsýnispallinum og hann ekki tilbúinn fyrir ferðamenn.
Jón Páll sagði að það hefði verið gaman að opna pallinn fyrr en snjóálag hefði ekki verið hagstætt og það væri enn 30-50 sentímetra gat á milli brúnarinnar og pallsins. Á mánudaginn yrði farið upp að pallinum til að moka frá honum og ganga endanlega frá öryggismálum. Í kjölfarið yrðu útsýnispallurinn og vegurinn opnaðir.
Þá sagði hann að í venjulegu árferði væri án efa búið að opna pallinn en bærinn vilji ekki bera ábyrgð á því að eitthvað fari úrskeiðis þegar pallurinn er ekki orðinn öruggur.
Semja um hver sjái um viðhald til framtíðar
Jón Páll sagði bæinn hafa átt í farsælu samstarfi við Landhelgisgæsluna um veginn og framkvæmd pallsins. Bærinn væri hins vegar í samningaviðræðum við Landhelgisgæsluna um að taka yfir veghaldið í samstarfi við Vegagerðina.
Hluti af því samkomulagi væri að ákveða til framtíðar hvernig væri best að viðhalda veginum af því að á næstu árum gætu komið þangað allt að 100 þúsund gestir.
Allir sem kæmu að samkomulaginu, sveitarfélagið, Landhelgisgæslan og Vegagerðin, væru sammála um hvað þyrfti að gera með tilliti til vegarins en það ætti bara eftir að semja um hvernig það yrði útfært.