Francia Marquez verður varaforseti landsins, fyrst svartra kvenna. Marquez, sem er einstæð móðir og starfaði áður sem þerna, hefur barist ötullega fyrir mannréttindum og umhverfisvernd. „Í dag hafa allar konur sigrað,“ tísti hún eftir að úrslitin lágu ljós fyrir.
Petro tilheyrði M-19 uppreisnarhreyfingunni en varð síðar þingmaður og borgarstjóri Bogota. Andstæðingur hans í kosningunum, athafnamaðurinn Rodolfo Hernandez, játaði sig sigraðan í gær og sagðist vona að niðurstaðan yrði öllum til góðs.
Í sigurræðu sinni kallaði Petro eftir samstöðu og sagði gagnrýnendur sína verða velkomna í forsetahöllinni til að ræða þau vandamál sem steðjuðu að landinu. Þau eru mörg en gríðarleg óánægja ríkir meðal þjóðarinnar vegna vaxandi ójafnréttis og framfærslukostnaðar.
Petro sagðist myndu hlusta á raddir hins þögla meirihluta; bænda, innfæddra, kvenna og ungmenna. Meðal þeirra sem óskuðu honum til hamingju með sigurinn voru Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó.