Dagbjartur Ingvar Arilíusson hefur rekið brugghúsið Steðja í Borgarfirði síðastliðinn áratug ásamt eiginkonu sinni Svanhildi Valdimarsdóttur.
Mikla athygli vakti á dögunum þegar Dagbjartur lét reyna á mátt Facebook og auglýsti allar brugggræjur Steðja á hópnum Brask og brall.is. „Komplett verksmiðja. Ásett verð 30 milljónir, ýmis skipti skoðuð,“ sagði í auglýsingunni.
Þetta vakti áhuga þáttastjórnenda Bítisins á Bylgjunni sem slógu á þráðinn til Dagbjarts í morgun. Hlusta má á viðtal við hann í spilaranum hér að neðan:
„Það er kannski komin ákveðin þreyta í okkur hjónin sem erum að reka þetta. Við erum búin að standa í framlínunni tíu ár í að reyna að koma einhverjum breytingum í gagnið,“ segir Dagbjartur spurður að því hvort það sé ekki skrýtið að leggja upp laupana núna þegar stutt er í að handverksbrugghús fá leyfi til að selja vörur sínar beint til viðskiptavina.
Hann segir að reksturinn hafi verið erfiður þau tíu ár sem Steðji var starfræktur, sér í lagi með tilliti til þess að koma bjór í hillur ÁTVR. „Þetta er mjög harður heimur,“ segir Dagbjartur.
Þá segir hann að það séu aðeins fjármagnseigendur sem geti tryggt vörum sínum hillupláss í ÁTVR, enda sé eina leiðin til þess að kaupa eigin vörur í brettavís. Steðji hafi aldrei haft fjármagn til þess.