Rússar skutu tveimur eldflaugum að bænum Serhiyivka skammt frá hafnarborginni Odessa í gærkvöldi. Fyrri eldflauginni var skotið á níu hæða fjölbýlishús þar sem flestir voru sofandi heima hjá sér. Seinni eldflauginni var síðan skotið á sumarbúðir í bænum.

Talsmaður Rússlandsforseta var fljótur að sverja af sér ódæðið í morgun og sagði Rússa ekki skjóta á óbreytta borgara, þótt sannanir fyrir hinu gagnstæða séu yfirgæfandi um alla Úkraínu. Eldflaugarnar sem Rússar notuðu í þetta skipti eru sömu gerðar og þeir skutu á verslunarmiðstöð í Kremenchuk á mánudag. Þær eru gamlar og ónákvæmar sem hernaðarsérfræðingar segja til marks um að Rússar séu búnir með nýrri og nákvæmari eldflaugar. Refsiaðgerðir Vesturlanda koma í veg fyrir að þeir fái íhluti í stýrikerfi nýrri flauga.
Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu segir árásina enga tilviljun eins og rússneskir fjölmiðlar haldi fram.

„Þetta eru beinar rússneskar eldflaugaárásir. Þetta eru rússneskar hryðjuverkaárásir á borgirnar okkar, þorpin og á fólkið okkar, bæði fullorðna og börn," sagði Zelenskyy í dag.
Í dag undirrituðu forseti Úkraínu, forseti þingsins og forsætisráðherra sameiginlega yfirlýsingu til að undirstrika samstöðu þings og framkvæmdavalds í aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu. Forsetinn sagði aðildina forsendu þess að íbúar Úkraínu þyrftu ekki að vakna upp við sprengjuregn í framtíðinni.
„Við höfum nálgast umsókn í 115 daga. Leið okkar til aðildar má ekki taka ár eða áratugi. Við verðum að fara
þessa leið hratt," sagði forsetinn. Til að flýta fyrir umsóknini yrðu Úkraínumennn sjálfir vinna sína heimavinnu.

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fylgdist með athöfninni með fjarfundarbúnaði. Hún sagði Úkraínu hafa skýra evrópusýn.
„Það er löng leið fram undan. En Evrópa verður við hliðina á ykkur alla leið, eins lengi og það tekur að fara frá þessum myrku stríðsdögum þangað til þið farið inn um dyrnar að Evrópusambandinu okkar. Ég hef trú á Evrópuframtíð Úkraínu," sagði Ursula von der Leyen.