Haukur skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann rýndi í endurgreiðslukröfu íslenska ríkisins á hendur æðstu embættismanna. Málið sé athyglisvert að því leyti að það sé „daglegt brauð hjá öldruðum, öryrkjum og atvinnulausum“ að ríkið taki til baka ofgreidd laun en þeir eigi nú „þjáningarsystkini í hópi æðstu ráðamanna.“
Hann segir í færslunni að í svona málum sé tvennt sem vegi þungt. Annars vegar sé það hvort sá sem fékk ofgreitt hafi átt möguleika á að vita að um ofgreiðslu væri að ræða. Hins vegar skipti máli hvor aðilinn gerði mistökin sem leiddu til ofgreiðslunnar.
Í þessu dæmi hafi þeir sem fengu ofgreitt ekki getað vitað að þeir hafi fengið ofgreitt og þeir hafi ekki gert mistök sem síðan leiddu til ofgreiðslunnar. Hann telur því sterk rök styðja að æðstu embættismenn eigi fullan rétt á að halda ofgreiðslunni.
Jafnframt telur hann að ríkið gæti tapað prófmáli um þessa endurgreiðslukröfu á hendur æðstu ráðamönnum ef til þess kæmi. Enn fremur segir hann að það vanti dómafordæmi í svona málum til að stoppa „hliðstæðar siðlitlar endurgreiðslukröfur ríkisstofnana gagnvart fátæku fólki; stofnana sem sjálfar gera mistökin.“
Í samtali við blaðamann sagðist Haukur vilja bæti því við að hann liti svo á að ríkið mætti leiðrétta laun frá þeim tíma sem leiðréttingin væri gerð.