Flugvellir víðs vegar um Evrópu hafa verið yfirfullir af fólki í sumar. Fólk er byrjað að ferðast aftur eftir heimsfaraldur en illa hefur gengið að manna starfsstöðvar á nokkrum af stærstu flugvöllum heims. Manneklan hefur skilað sér í löngum biðröðum og mikilli ringulreið meðal farþega.
Tafir og biðraðir eru þó ekki það eina sem hefur hrjáð flugfarþega heldur einnig er mikið um niðurfellingar og seinkanir á flugi. Þá hefur mannekla á flugvellinum einnig valdið því að fólk á í erfiðleikum með að fá töskurnar sínar afhentar.
Mikið álag er á starfsfólki flugfélaganna og hafa starfsmenn tveggja af stærstu flugfélögum heims, SAS og Ryanair, hótað að fara í verkfall. Flugmenn SAS eru í miðri kjarabaráttu en tæplega þúsund flugmenn starfa fyrir félagið.

„Við þurfum að sofa, enginn af okkur hefur sofið í mjög langan tíma,“ sagði Marianne Hernaes, formaður hópsins sem leiðir kjarasamningaviðræður hjá SAS, í samtali við The Guardian eftir fund hópsins á föstudaginn. Fundað verður áfram eftir helgi.
Flugfreyjur og -þjónar flugfélagsins Ryanair stefna á að fara í verkfall í júlí vegna óboðlegra aðstæðna. Flugfélagið flýgur á tíu áfangastaði á Spáni. Ryanair er ekki með beint flug milli Íslands og Spánar.