Hinn 28 ára gamli Umtiti átti að verða máttarstólpi í liði Barcelona er félagið keypti hann árið 2016. Það varð aldrei raunin er dvöl hans hefur einkennst af meiðslum og lélegum frammistöðum. Þá segir sagan að Umtiti hafi ekki viljað taka á sig launalækkun sem hefði gert Barcelona kleift að halda Lionel Messi hjá félaginu.
Umtiti var með efnilegri varnarmönnum Evrópu er Börsungar festu kaup á honum 2016. Hann hafði spilað vel með Lyon, leikið með öllum yngri landsliðum Frakklands og var talinn eiga bjarta framtíð fyrir sér. Var hann til að mynda lykilmaður í sigri Frakka á HM árið 2018 en hefur svo ekki spilað landsleik síðan 2019.
Umtiti náði sér aldrei á strik í Katalóníu, var mikið meiddur og almennt slakur þegar hann spilaði. Nú virðist sem dvöl hans þar sé loks á enda en franska félagið Rennes vill fá leikmanninn í sínar raðir.
Rennes tekur þátt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð og vill þjálfari liðsins, Bruno Genesio, fá hágæðaleikmann eins og Umtiti til að styrkja leikmannahópinn. Genesio þekkir Umtiti frá því þegar hann þjálfaði hjá Lyon á árum áður.