Skiptum á búi Hjá Jóa Fel – Brauð/kökulist ehf. lauk þann 28. júní síðastliðinn. Lýstar kröfur í búið voru 333 milljónir en af þeim voru kröfur upp á 140 milljónir króna samþykktar. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu.
Búið var tekið til gjaldþrotaskipta þann 23. september árið 2020 og var Grímur Sigurðsson lögmaður skipaður skiptastjóri á búinu samdægurs. Rúmum tveimur vikum seinna baðst hann lausnar á skipun sinni sem skiptastjóri og var Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri í kjölfarið.
Félagið var tekið til skipta eftir að gjaldþrotabeiðni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var samþykkt en félagið hafði ekki greitt iðgjöld af launum starfsfólk þrátt fyrir að hafa innheimt þau.
Jói Fel rak sex bakarí á höfuðborgarsvæðinu á sínum tíma, í JL-húsinu, Smáralind, Garðabæ, Borgartúni, Spönginni og í Holtagörðum þar sem öll framleiðsla fór fram.