Félagið gerði leigusamning við portúgalska flugrekandann Euro Atlantic en vélin verður fyrst og fremst nýtt í Evrópuflug Icelandair. Boeing 767 tekur rúmlega þrjú hundruð farþega en félagið á fyrir þrjár slíkar vélar.
„Við erum að verða fyrir því, eins og heimurinn allur, að aðfangakeðjan er aðeins hægari en venjulega út af ástandinu í heiminum og þess vegna taka viðhaldsverkefni lengri tíma. Síðan er mikil mannekla á flugvöllum úti í heimi sem veldur töfum og truflunum á leiðarkerfinu okkar. Til að bregðast við þessu og búa til meira svigrúm í okkar kerfi þá tökum við þessa vél inn núna næstu tvær vikurnar.“
Aðalatriðið sé að tryggja góða þjónustu.
„Við viljum að áætlanir séu eins áreiðanlegar og hægt er og það sem við erum að glíma við núna eru þessar truflanir á flugvöllum úti í heimi og það er ekki síst þess vegna sem við bætum þessari flugvél við. Við viljum halda stundvísi eins góðri og við getum og sinna viðskiptavinum eins vel og við getum. Þetta eru krefjandi aðstæður. Okkar starfsfólk er að vinna ótrúlega vinnu á hverjum einasta degi og þetta bara býr til aukinn sveigjanleika.“
Félagið hefur undanfarna mánuði stigið skref í átt að stækkun en tilkynnt hefur verið um kaup á fjórum MAX vélum sem verða til taks á næsta ári. Þá hefur félagið gert samning um leigu á tveimur MAX vélum til viðbótar. Á næsta ári mun félagið þannig hafa yfir að ráða tuttugu MAX vélum.
„Við stækkum en með varkárum hætti. Við erum ekki komin upp í sömu stærð og félagið var fyrir COVID ástandið og við horfum til þess að vaxa í takt við eftirspurn.“