Fjársýsla ríkisins komst að því í síðustu viku að gerð hafi vrið mistök við útreikninga launahækkana og forseti Íslands, ráðherrar og ýmsir aðrir embættismenn því fengið of há laun greidd í þrjú ár.
Þetta á við um 260 embættismenn, þar af 215 sem eru enn í starfi, og verða þeir krafðir um endurgreiðslu sem nemur mismuninum sem þeir geta greitt til baka á tólf mánaða tímabili. Samtals nema ofgreiddu launin alls um 105 milljónum króna á tímabilinu.
Dómarar hafa gagnrýnt þetta harðlega og telja kröfuna ólögmæta.
Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þykir þessi lausn hins vegar sanngjörn en sjálf er hún á meðal þeirra sem verður að greiða mismuninn til baka:
„Þegar í ljós kemur að þessi laun hafa verið ofgreidd þá finnst mér sanngjarnt að við endurgreiðum það þó að mistökin séu ekki okkar heldur þeirra sem greiða út launin, þá finnst mér það sanngjarnt,“ segir Katrín.
Hvort þessi aðgerð geti verið íþyngjandi fyrir embættismenn, sem munu ýmist lenda í því að ofgreiddu launin verði dregin frá launum þeirra á næstunni eða verður gert greiða launin til baka á 12 mánaða tímabili segir Katrín:
„Eins og ég segi; þetta eru ekki allir opinberir starfsmenn, þetta eru æðstu embættismenn sem að hæstu hafa launin. Þannig ef einhver ætti að ráða við það þá erum það við.“