Innherji

Forstjóri PLAY segir lækkun kostnaðar staðfesta viðskiptalíkanið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Á fyrsta ársfjórðungi 2022, hóf PLAY að innleiða eldsneytisvarnastefnu félagsins.
Á fyrsta ársfjórðungi 2022, hóf PLAY að innleiða eldsneytisvarnastefnu félagsins. Vísir/Vilhelm

Einingakostnaður PLAY hefur snarlækkað eftir því sem flugfélagið hefur skalað upp starfsemina. Forstjóri félagsins segir að tölurnar staðfesti grundvallarhagkvæmni viðskiptalíkansins sem lagt var upp með.

Fram kemur í tilkynningu PLAY til Kauphallarinnar að flugfélagið hafi flutt 87.932 farþega í júní og sætanýting nam 79,2 prósentum samanborið við 69,6 prósenta nýtinu í maí. Þessi sætanýting telst „mjög ásættanleg“ að mati flugfélagsins sem bendir á að júní hafi verið fyrsti mánuðurinn þar sem tengiflugsáætlunin yfir Atlantshafið var í notkun og mikið um nýja áfangastaði.

„Við starfræktum loks tengiflugsleiðarkerfið allt eins og það leggur sig og það með sex flugvélar í notkun. Það er frábært að sjá einingarkostnaðinn snarlækka þegar við höfum náð þessum skala í starfseminni,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Á fyrsta ársfjórðungi 2022, hóf PLAY að innleiða eldsneytisvarnastefnu félagsins. Fyrsta skrefið var varfærið og verið er að stíga það næsta, nú þegar ákveðið hefur verið að bæta í eldsneytisvarnirnar. Með þeirri viðbót er félagið að tryggja 30% olíunotkunar sinnar á næstu þremur mánuðum og 15% til næstu fjögurra til sex mánaða.

„Nú höfum við náð markmiðum okkar um að einingarkostnaður án eldsneytis (CASK ex-fuel and emissions) sé minni en fjögur sent, í takt við þær áætlanir sem félagið hefur þegar kynnt. Þetta skiptir sköpum þegar kemur að því að bjóða upp á lægsta verðið á mörkuðum okkar. Þar ræður lágur grunnkostnaður úrslitum. Tölfræðin núna er að staðfesta grundvallarhagkvæmni viðskiptamódelsins sem lagt var upp með og hvetur okkur til dáða að keyra kostnað enn frekar niður eftir því sem við höldum áfram að vaxa,“ segir Birgir.

Stundvísi í júní mældist 79,1 prósent. Hún var ekki í samræmi við markmið PLAY í venjulegu árferði en telst „fullnægjandi“, að mati flugfélagsins, í ljósi þess að tengiflugsleiðakerfið var stækkað auk þess sem mikil mannekla hefur valdið keðjuverkandi seinkunum á flugvöllum í Evrópu.

Það er frábært að sjá einingarkostnaðinn snarlækka þegar við höfum náð þessum skala í starfseminni

Hraður bati á sviði alþjóðaflugs um allan heim og skortur á starfsfólki í greininni eftir heimsfaraldur hefur valdið talsverðum töfum í leiðarkerfum flugfélaga víðsvegar um heim og þar er PLAY ekki undanskilið,“ segir í tilkynningu PLAY.

„Af þessum orsökum hefur fallið til kostnaður og röskun á ferðatilhögun farþega félagsins. Þessi kostnaður er staðreynd í flugrekstri og er því stærð sem sett er inn í rekstraráætlanir PLAY. Sá kostnaður sem félagið hefur orðið fyrir rúmast innan þess sem gert hefur verið ráð fyrir í áætlunum félagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×