Ráðherrarnir voru að ræða saman í fyrsta sinn síðan í október á síðasta ári en á fundi sínum ræddi Blinken um áhyggjur sínar af sambandi Rússa og Kínverja. Að sögn Blinken gekk fundurinn vel.
„Við ræddum mjög opinskátt um hvað skilur okkur að, en fundurinn var einnig uppbyggjandi þrátt fyrir mikla hreinskilni,“ hefur CNN eftir fulltrúa frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.
Blinken hefur neitað að funda með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en hann er einnig í Indónesíu þessa dagana. Ráðherrarnir eru allir þar á ráðstefnu G20-ríkjanna.
Xi Jinping, forseti Kína, og Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ræddu saman símleiðis nýlega og sagði Jinping að hann vildi að þjóðirnar myndu stofna bandalag. Bandaríkjamenn hafa varað Kínverja við því að aðstoða Rússa í stríði sínu við Úkraínu og ætla að setja á refsiaðgerðir gegn þeim skyldu þeir senda vopn eða önnur hergögn til Rússlands.