Venjulega myndi leikur sem flokka mætti sem miðjumoð í kanadísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu ekki rata á borð Íslendinga en að þessu sinni er góð og gild ástæða. Áðurnefnt klúður er einfaldlega eitt af klúðrum ársins, klúðrum aldarinnar og mögulega mesta klúður allra tíma á knattspyrnuvellinum.
Það voru rúmlega 16 mínútur liðnar af leiknum og staðan markalaus þegar Valour komst í ákjósanlegt færi. Alessandro Riggi virtist vera að koma heimamönnum í Valour yfir eftir ágætis sókn en boltinn var við það að skoppa yfir línuna þegar William Akio, samherji Riggi, ætlaði að stela markinu og þruma boltanum í netið.
Það tókst ekki betur en svo að Akio skaut lengst framhjá miðað við hvar boltinn var. Halda mætti að Akio hafi talið að boltinn væri á leið í eigið net og hann væri því að bjarga marki frekar en að reyna skora.
Þetta ótrúlega atvik má sjá hér að neðan en sem betur fer fyrir Akio fór Valour með sigur af hólmi, lokatölur 1-0 þökk sé marki Moses Dyer í síðari hálfleik.
Bizarre scenes in the Canadian Premier League, where Valour FC's William Akio denied his own team a certain goalpic.twitter.com/l4ozLVsxem
— Mirror Football (@MirrorFootball) July 10, 2022