Eldflaugarnar eru sagðar hafa verið af gerðinni Kalibr en Úkraínumenn segjast hafa skotið niður einhverjar af eldflaugunum sem skotið var af borginni..
52 eru á sjúkrahúsi og þar af minnst fimm í alvarlegu ástandi en 39 er saknað, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Minnst þrjú börn eru sögð vera meðal hinna látnu.
Rússar, sem halda því ranglega fram að þeir geri ekki árásir á neitt nema hernaðarleg skotmörk, hafa ekki viðurkennt árásina en Margarita Simonyan, ritstjóri rússneska ríkismiðilsins RT, sagðist í dag hafa heimildir fyrir því að árás hefði verið gerð á byggingu í Vinnitsía, því sú bygging hýsti „nasista“. Ráðamenn í Rússlandi hafa frá upphafi innrásarinnar logið því að nasistar stjórni Úkraínu.
Það að bjarga íbúum Úkraínu undan oki þessara meintu nasista er ein af mörgum ástæðum sem Rússar segja fyrir innrásinni.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og aðrir embættismenn hafa lýst árásinni sem stríðsglæp en Rússar standa frammi fyrir fjölmörgum trúverðugum ásökunum um stríðsglæpi eins og fjöldamorð og nauðganir í Úkraínu.
Selenskí sagði á alþjóðlegri ráðstefnu í Haag, þar sem fulltrúar um fjörutíu ríkja ræða hvernig rannsaka eigi meinta stríðsglæpi Rússa í Úkraínu, að árásin hefði verið gerð á byggingu sem hýsti heilsugæslustöð og önnur hús. Þar að auki hafi kviknað í um fimmtíu bílum.
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, tísti myndum af eftirmálum árásarinnar í dag. Hann sagði Rússa gera markvissar árásir á borgara til að dreifa ótta. Rússland væri hryðjuverkaríki og það þyrfti að skilgreina ríkið sem slíkt.
Already 20 civilians have been confirmed dead following a Russian missile strike on Vinnytsia. Three children, including a toddler in the photo. This is terrorism. Deliberate murder of civilians to spread fear. Russia is a terrorist state and must be legally recognized as such. pic.twitter.com/AGMCbbjDH4
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) July 14, 2022