Eftir að hafa pakkað heimaleiknum saman þá mætti fjöldinn allur af stuðningsmönnum Pogon hingað til lands til að sjá sína menn rúlla upp sveitastrákunum í KR. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR sagði fyrir leik að hans menn hefðu ekki staðið sig nægilega vel í Póllandi og ætluðu að bæta upp fyrir það á eigin heimavelli.
Segja má að leikplan Rúnars hafi gengið upp en KR liðið spilaði þétta vörn og ef liðið hefði nýtt sóknir sínar örlítið betur hefði eflaust farið um leikmenn Pogon. Sigurður Bjartur Hallsson skoraði eina markið í fyrri hálfleik er hann kláraði afbragðsvel eftir frábæra sendingu frá Aroni Kristófer Lárussyni frá vinstri.
Leiknum lauk með 1-0 sigri KR og voru stuðningsmenn Pogon allt annað en sáttir með úrslit leiksins. Margir þeirra eflaust nokkuð þreyttir en samkvæmt heimildum Stöðvar 2 og Vísis settu þeir ákveðinn blæ á skemmtanalíf Reykjavíkur á miðvikudagskvöldið.
Fór það svo að Kamil Grosicki, landsliðsmaður Póllands, þurfti að fara og róa mannskapinn eftir leik. Ræddi hann við stuðningsmenn liðsins í drykklanga stund. Þó stuðningsmennirnir hafi ekki verið sáttir ákváðu þeir að vera ekki með frekari uppsteit og koma sér heim á leið, gæslunni á Meistaravöllum til mikillar gleði.

Farið var yfir hamaganginn í gestunum í Sambandsdeildar-Stúkunni að leik loknum. Þar ræddu þeir Kjartan Atli Kjartansson, Albert Brynjar Ingason og Lárus Orri Sigurðsson um sigra KR og Breiðabliks í Sambandsdeildinni í gær. Hér að neðan má sjá umræðuna um litríka stuðningsmenn Pogon.