Innherji

Ný gerð af fram­taks­sjóði tryggir sér 1,5 milljarða króna

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þórir Kjartansson, meðeigandi Íslenskrar fjárfestingar sem er leiðandi fjárfestir í Leitar, situr í stjórninni.
Þórir Kjartansson, meðeigandi Íslenskrar fjárfestingar sem er leiðandi fjárfestir í Leitar, situr í stjórninni.

Leitar Capital Partners, nýtt félag sem mun leggja áherslu á að fjárfesta í ungu og öflugu fólki og styðja það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka, hefur gengið frá 1,5 milljarða fjármögnun á fyrsta fjárfestingarsjóði félagsins. Sjóðurinn mun einblína á fjárfestingar í svokölluðum leitarsjóðum (e. Search Funds).

Leitarsjóður er heiti yfir félag sem er stofnað utan um ungan frumkvöðul, oft nefndur leitari, sem Leitar fjármagnar til að finna fyrirtæki til að kaupa. Viðkomandi tekur við sem framkvæmdastjóri við kaup og stýrir fyrirtækinu í gegnum vöxt og umbreytingu þar til ákvörðun er tekin að selja aftur. Einnig fær leitarinn hlut í fyrirtækinu í upphafi sem getur stækkað í hlutfalli við ávöxtun fjárfesta.

Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Leitar Capital Partners, segir að með stofnun sjóðsins sé verið að búa til nýjan valkost fyrir unga einstaklinga sem hafa kjark og metnað. „Í raun er þetta ný hilla fyrir þá sem eru að útskrifast eða að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaði og hafa trú á eigin getu og hæfileikum,” segir Einar og bætir við að á undanförnum árum hafi leitarsjóðir orðið einn eftirsóttasti valkostur nemenda að loknu MBA námi erlendis.

„Í stað þess að ráða sig í vinnu eða stofna fyrirtæki frá grunni þá eru sífellt fleiri að kaupa og reka fyrirtæki í gegnum leitarsjóði. Viðkomandi þarf að búa yfir menntun, þekkingu eða reynslu en einnig munum við leggja áherslu á aðra mikilvæga eiginleika eins og þrautseigju, vinnusemi og leiðtogahæfni enda mun reyna mikið á alla þessa þætti við leit og uppbyggingu á fyrirtæki.”

Erlendis hefur ungt fólk og fjármagn flætt inn í þennan hluta framtaksfjárfestinga og erum við í kjörstöðu að tengja þetta saman hér heima í fyrsta sinn

Þá segir hann leitarsjóði hafa náði eftirtektarverðum árangri í fjárfestingum erlendis – árleg nafnávöxtun hefur að meðaltali numið 30 prósentum til langs tíma – og samhliða því hafa leitarar hagnast verulega.

Leiðandi fjárfestar í verkefninu eru Íslensk fjárfesting og Birgir Örn Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Domino's á Íslandi, sem er stjórnarformaður Leitar Capital Partners. Leitar verður skráður rekstraraðili sérhæfðra sjóða og Einar segir að reynslumiklir rekstraraðilar og einkafjárfestar, ásamt Arion banka og VÍS, komi að fyrsta sjóðnum.

Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri Leitar Capital Partners

„Það var ánægjulegt að sjá áhuga fjárfesta að styðja við ungt og öflugt fólk. Fjárfestingin snýr ekki bara að fjármagni heldur eru fjárfestar okkar reiðubúnir að gefa til baka og miðla þekkingu sinni og reynslu á meðan leit stendur og ekki síður við stefnumótun og rekstur fyrirtækis í gegnum stjórnarsetu. Því leituðum við helst til fjársterkra einkafjárfesta og rekstraraðila með reynslu úr atvinnulífinu.”

Samkvæmt heimasíðu félagsins skipa stjórn félagsins Birgir Örn, Þórir Kjartansson, Bjarni Þórður Bjarnason og Einar Steindórsson. Ráðgjafaráð fyrsta sjóðsins skipa síðan Andri Sveinsson, fyrrum meðeigandi Novator og fjárfestir, Arnar Þórisson, meðeigandi Íslenskrar fjárfestingar, Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Arion banka, Gísli Jón Magnússon, framkvæmdastjóri Norvik og Jón Felix Sigurðsson fjárfestir.

Í stað þess að ráða sig í vinnu eða stofna fyrirtæki frá grunni þá eru sífellt fleiri að kaupa og reka fyrirtæki í gegnum leitarsjóði.

„Þetta er kjarninn í hópnum sem leiðir vinnuna sem er fram undan en með okkur verða síðan fleiri ráðgjafar og leiðbeinendur. Verkefni þessa hóps verður að styðja ungt fólk að finna góð fjárfestingartækifæri, útvega eigendum smærri fyrirtækja leið til að selja og á sama tíma byggja upp þekkingu á “search funds” á Íslandi.” segir Einar

Aðspurður hver næstu skref eru segist hann að Leitar muni eiga samtal við öflugt fólk sem hefur áhuga að veðja á eigin hæfileika og getu til að ná árangri í atvinnurekstri.

„Á meðan við bíðum eftir að fá skráningu sem rekstraraðili munum við með haustinu koma okkur betur á framfæri og að fljótlega verði 2-3 aðilar byrjaðir að leita að fjárfestingum með okkur. Þetta er nýtt og spennandi tækifæri fyrir ungt fólk að láta til sín taka fyrr á sínum ferli. Erlendis hefur ungt fólk og fjármagn flætt inn í þennan hluta framtaksfjárfestinga og erum við í kjörstöðu að tengja þetta saman hér heima í fyrsta sinn.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×