
Sunak hlaut atkvæði 118 þingmanna flokksins og bætti við sig þremur. Penny Mordaunt utanríkis-viðskiptaráðherra er áfram í öðru sæti með 92 atkvæði, bætti við sig tíu og Liz Truss utanríkisráðherra er einnig áfram í þriðja sæti með 86 atkvæði, bætir við sig 15 atkvæðum.

Bilið milli Truss og Mordaunt hefur því minnkað frá upphafi kjörsins. Það kemur í ljós að lokinni fimmtu umferð í kosningu þingmanna á morgun hvort Truss nær að vinna sig upp í annað sætið en hún og Mordaunt hafa báðar sætt mikilli gagnrýni úr ólíkum áttum innan Íhaldsflokksins undanfarna viku.
Kemi Badenoch fékk 59 atkvæði, bætti við sig einu og fellur úr leik samkvæmt reglum flokksins.

Eftir atkvæðagreiðslu þingmanna á morgun verða aðeins tveir frambjóðendur eftir sem almennir flokksmenn kjósa síðan á milli. Niðurstaða þeirrar kosningar verður kynnt hinn 5. september og þá kemur í ljós hver verður næsti forsætisráðherra Bretlands.