Í ár eru aðeins þrjú íslensk lið með í Evrópukeppnum karla í stað fjögurra áður. Það er vegna afar slæms gengis íslensku liðanna í þeim keppnum á allra síðustu árum en gengi fimm tímabila ræður stöðu þjóða á styrkleikalista UEFA.
Með árangri íslensku liðanna í ár er hins vegar útlitið orðið mun bjartara varðandi það að þau nái að bæta aftur við sig fjórða Evrópusætinu, sem þá yrði keppt um í Bestu deildinni á næstu leiktíð þannig að fjögur íslensk lið ættu tækifæri á Evrópuævintýri sumarið 2024.
Notandinn UEFACalculator á Twitter reiknar út stöðu þjóða á styrkleikalista UEFA eftir hverja umferð í Evrópukeppnunum þremur. Ísland hefur á þeim lista farið úr „ruslflokki“ og upp um fimm sæti, í 47. sæti, og nú þegar safnað 2,5 stigum á þessari leiktíð samanborið við 1,5 í fyrra og aðeins 0,625 stig bæði tímabilin tvö þar á undan.

Hver sigur liðs skilar þjóðum 1 stigi, deilt með fjölda liða sem þau eiga í Evrópukeppnum. Í tilviki Íslands skilar því sigur Breiðabliks gegn Buducnost í gær og sigur Víkings gegn The New Saints 0,33 stigum hvor.
Áður höfðu Víkingar safnað stigum með því að vinna andstæðinga sína tvo í forkeppni Meistaradeildar Evrópu og með því að gera jafntefli við Malmö í seinni leik liðanna.
KR sótti einnig stig með því að vinna Pogon í seinni leik liðanna, þó að það hafi ekki dugað til að komast áfram í keppninni, og Breiðablik gerði vel í að vinna báða leiki sína gegn UE Santa Coloma.
Erfið einvígi bíða komist íslensku liðin áfram
Í næstu viku ræðst hvort Víkingur og Breiðablik haldi áfram keppni í Sambandsdeildinni, og komist þar með áfram í 3. umferð undankeppninnar. Það yrði afar dýrmætt vegna keppni Íslands við Wales og Svartfjallaland um stöðu á styrkleikalistanum.
Komist Breiðablik áfram mætir liðið sigurliðinu úr einvígi Istanbul Basaksehir og Maccabi Netanya í næstu umferð. Víkinga bíður hins vegar sennilega einvígi við Lech Poznan frá Póllandi, komist þeir áfram, því Lech Poznan vann georgíska liðið Dinamo Batumi 5-0 í fyrri leik liðanna.