Ronaldo eyddi níu árum með Real Madrid sem eru erkifjendur Atletico Madrid til margra ára. Stuðningsmenn þess síðarnefnda eru ekki búnir að gleyma framkomu Ronaldo gegn Atletico. Á löngum ferli sínum hefur hann skorað 25 mörk í 35 leikjum gegn Atletico og tvisvar unnið liðið í úrslitaleik Meistaradeild Evrópu með Real Madrid.
Ronaldo skoraði svo þrennu í Meistaradeildinni gegn Atleticto árið 2019 þegar hann lék með Juventus. Ronaldo stráði salt í sár stuðningsmanna Atletico með því að fagna einu markinu með því að gera grín af fögnuði knattspyrnustjóra liðsins, Diego Simeone, í leiknum á undan.
Stuðningsmenn Atletico hafa undanfarið verið að deila sínum skoðunum á Ronaldo undir myllumerkinu #ContraCR7 sem mætti þýða sem „andsnúnir CR7“
Einn stuðningsmaður skrifar að hann muni segja upp öllum sínum áskriftum hjá Atletico ef Ronaldo kemur á meðan annar skrifar að gildi þeirra þýði meira en mörkin sem Ronaldo gæti komið með. Aðrir setja hreinlega mynd af Ronaldo með bannmerki yfir.
#ContraCR7 pic.twitter.com/owUFB2jfY7
— Sgt. Oddball (@SgtOddball4) July 23, 2022
Það gæti því reynst þrautinni þyngri fyrir Ronaldo að finna sér nýtt félagslið en stuðningsmenn Atletico bætast við í hóp liða í Evrópu sem hafa keppst um að mótmæla áhuga á leikmanninum. Leikmaðurinn var fyrst orðaður við Chelsea sem sagðist ekki hafa áhuga á Ronaldo. Síðar var röðin kominn af PSG sem neitaði einnig áhuga. Bayern München hefur líka andmælt áhuga á Ronaldo á meðan leikmaðurinn hefur sjálfur neitað að endurkoma hans í Sporting Lisbon sé yfirvofandi.