Handbolti

„Markmiðið er að komast í þýsku deildina eftir þessi tvö ár“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Þórisson stefnir á að spila í þýsku úrvalsdeildinni á komandi árum.
Tryggvi Þórisson stefnir á að spila í þýsku úrvalsdeildinni á komandi árum. Vísir/Hulda Margrét

Handknattleiksmaðurinn Tryggvi Þórisson var í gær kynntur sem nýr leikmaður sænsku deildarmeistaranna Sävehof. Þessi tvítugi línumaður hefur seinustu ár verið lykilmaður í liði Selfyssinga í Olís-deild karla, en hann segist setja stefnuna á þýsku úrvalsdeildina á komandi árum.

„Þetta kom mjög skyndilega upp á. Leikmaðurinn sem var í minni stöðu ákvað að hætta og þegar hann tekur þá ákvörðun þá heyra þeir bara strax í mér þarna í byrjun júlí,“ sagði Tryggvi þegar Vísir náði tali af honum.

Sävehof varð deildar- og bikarmeistari í Svíþjóð á seinasta tímabili og liðið hefur um árabil verið í fremstu röð þar í landi. Tryggvi segir að það hefi spilað inn í ákvörðun sína, ásamt því að hann sé mjög hrifinn af þjálfara liðsins, Michael Apelgren.

„Ég stökk á þetta af því að í klúbbnum er mikil sigurhefð. Og svo er það þjálfarinn. Hann gerði Elverum að því sem það er í dag og er bara einn besti þjálfarinn í heiminum í dag.“

„Það voru alveg önnur lið sem höfðu verið í sambandi við mig, en þau voru meira og minna að bjóða mér að koma eftir næsta tímabil. Sävehof vildi fá mig núna og þó að hitt sem var í boði hafi allt verið frábærir valmöguleikar þá fannst mér þetta vera rétta skrefið fyrir mig.“

Tryggvi hefur fengið smjörþefinn af Evrópukeppnum frá tíma hans á Selfossi, en nú tekur við forkeppni Evrópudeildarinnar með Sävehof.

„Við verðum í Evrópudeildinni. Af því að þeir unnu „bara“ bikarinn og deildina þá þurfum við að fara í umspilið.“

Tryggvi skrifaði undir tveggja ára samning við Sävehof, en er þó strax farinn að horfa lengra. Hann segir að stefnan sé sett á sterkustu deild heims, þýsku úrvalsdeildina, og að þjálfari liðsins sé tilbúinn að hjálpa honum að ná þeim markmiðum.

„Ég reyni auðvitað bara að hugsa um þetta tímabil núna með Sävehof, en markmiðið er að komast í þýsku deildina eftir þessi tvö ár. Þessi þjálfari er tilbúinn að hjálpa mér við það. Það er markmiðið hans líka,“ sagði Tryggvi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×