Norrköping hefur verið þjálfaralaust síðan Rikard Norling var sagt upp störfum fyrir tæpum mánuði. Anes Mravac og Vedran Vucicevic hafa stýrt Norrköping síðan þá en hafa ekki tilskilin þjálfararéttindi til að taka við liðinu til frambúðar.
Fotbollskanalen nefnir þrjá þjálfara sem gætu tekið við Norrköping. Þetta eru Óskar Hrafn, Daniel Bäckström, þjálfari Sirius, og Poya Asbaghi. Samkvæmt frétt Fotbollskanalen virðist Norrköping þó vera búið að strika þann síðastnefnda út þar sem hann hefur fengið nýtt starf utan fótboltans.
Íþróttastjóri Norrköping, Tony Martinsson, vildi ekki nafngreina neina kandítata í þjálfarastarfið en staðfesti að félagið hefði átt í viðræðum við nokkra aðila undanfarnar vikur.
Illa hefur gengið hjá Norrköping að undanförnu. Liðið er án sigurs í síðustu átta leikjum sínum og er í 12. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar.
Fjórir Íslendingar eru á mála hjá Norrköping: Arnór Sigurðsson, Andri Lucas Guðjohnsen, Ari Freyr Skúlason og Jóhannes Kristinn Bjarnason. Þá hefur Arnór Ingvi Traustason, leikmaður New England Revolution, verið orðaður við endurkomu til félagsins. Hann lék með Norrköping á árunum 2014-16 og varð sænskur meistari með liðinu 2015.
Breiðablik náði níu stiga forskoti á toppi Bestu deildar karla með 3-1 sigri á ÍA í gær. Næsti leikur Breiðabliks er gegn Istanbul Basaksehir í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á fimmtudaginn.