Það var nóg um að vera á Suðurlandi um helgina, fjölskylduhátíðin Flúðir um versló var haldin á Flúðum, Ungmennalandsmót UMFÍ var haldið á Selfossi og ferðuðust margir í gegnum umdæmið á leið sinni til Landeyjahafnar.
Í færslu á Facebook-síðu embættisins segir að helgin hafi farið fram stóráfallalaust að stærstum hluta en alls voru 360 mál og verkefni skráð hjá lögreglunni á Suðurlandi um helgina.
Ein tilkynning barst um kynferðisbrot og ein tilkynning um mögulega byrlun ólyfjan. Þrjár tilkynningar bárust um eignaspjöll en öll þessi mál eru nú til rannsóknar hjá embættinu.
Alls voru 24 ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja en áfengi mældist í blóði þrjátíu einstaklinga sem voru stöðvaðir en magnið var þó undir refsimörkum. Tólf ökumenn voru kærðir fyrir að aka án gildra ökuréttinda og 25 ökumenn fyrir hraðakstur.
„Starfsmenn Lögreglustjórans á Suðurlandi vilja þakka öllum þeim sem þeir áttu í samstarfi og/eða samskiptum við um helgina fyrir gott samstarf, hvort sem það voru aðrar stofnanir, mótshaldarar hátíða, íbúar eða gestir svæðisins. Lang flest samskipti voru jákvæð og telur lögreglan að það virka eftirlit sem haft var um helgina, hafi átt þátt í því að einungis var tilkynnt um sex minniháttar umferðarslys hjá embættinu um verslunarmannahelgina.“