Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom FH yfir strax á þriðju mínútu leiksins en Aldís Guðlaugsdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í upphafi seinni hálfleiks og þar við sat.
FH missti þarna af tveimur stigum í vegferð sinni að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili. FH-ingar tróna á toppi deildarinnar með 33 stig eftir þessi úrslit en HK er í öðru sæti með 29 stig Tindastóll því þriðja með 28 stig.
Víkingur komst svo upp í fjórða sæti deildarinnar með 26 stig með því að leggja Augnablik að velli með þremur mörkum gegn tveimur á Kópavogsvelli.
Bergdís Sveinsdóttir skoraði tvö marka Víkings og Christabel Oduro eitt en gestirnir komust í 3-0 í leiknum. Katla Guðmundsdóttir og Harpa Helgadóttir löguðu hins vegar stöðuna fyrir Augnalik.
Fylkir og Augnablik sigla lygnan sjó en liðin eru með 12 stig í sjötta til sjöunda sæti og eru átta stigum frá fallsvæðinu.
Upplýsingar um úrslit, markaskorara og stöðu í deildinni eru fengnar frá fotbolta.net.