Í frétt AFP fréttaveitunnar er haft eftir þingmönnum að árásir Rússa á óbreytta borgara í Úkraínu hafi pólitískan tilgang og því séu þær hryðjuverk.
Í ályktuninni segir að Rússar noti þjáningu og ógnanir til að reyna að draga móðinn úr úkraínsku þjóðinni og hernum og til að lama ríkisrekstur Úkraínu með því markmiði að hernema landið.
Samkvæmt frétt Ríkisútvarps Lettlands segir einnig í ályktuninni að Rússar hafi stutt og fjármagnað aðrar ríkisstjórnir sem fremji hryðjuverk og hryðjuverkasamtök um árabil. Það hafi Rússar gert beint og óbeit með stuðningi við ríkisstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.
Rússar hafi einnig framið hryðjuverk eins og með Skripal-eitruninni og með því að skjóta niður malasísku farþegaþotuna MH-17.
Rihard Kols er formaður utanríkismálanefndar þingsins.
The Saeima's statement calls on EU countries to immediately suspend the issuance of tourist and entry visas to Russian and Belarusian citizens. Things cannot and will not go back to normal - not with Russia and their terrorists sowing death and destruction on the world.
— Rihards Kols (@RihardsKols) August 11, 2022
Þá segir í ályktuninni að innrás Rússa í Úkraínu hafi leitt til þess að tólf milljónir Úkraínumanna hafa þurft að flýja heimili sín og fimm milljónir hafi þurft að flýja land. Þar að auki hafi fjölmörg ódæði rússneskra hermanna gegn óbreyttum borgurum í Úkraínu litið dagsins ljós. Borgarar hafi meðal annars verið myrtir, þeir pyntaðir og þeim nauðgað.
Þingið kallaði eftir því að Evrópusambandið hætti að veita ferðamönnum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi vegabréfsáritanir og dragi almennt úr útgáfu vegabréfsáritana til fólks frá þessum löndum.
Þjóðþing Litháens samþykkti í maí sambærilega ályktun um að Rússland væri hryðjuverkaríki og Rússar reyndu að fremja þjóðarmorð í Úkraínu.