Heimildarmenn blaðsins gátu hins vegar ekki gefið upp hvort gögnin vörðuðu vopnabúr Bandaríkjanna eða annars ríkis.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í gær að hann hefði persónulega gefið heimild fyrir leitinni og sagði dómsmálaráðuneytið hafa farið þess á leit við dómstól í Flórída að leitarheimildin yrði gerð opinber, þar sem Trump hefði sjálfur kosið að tjá sig um málið á samfélagsmiðlum.
Í beiðni ráðuneytisins segir að það sé hagsmunamál að almenningur fái að vita hvers vegna húsleitin var framkvæmd.

Forsetinn fyrrverandi kallaði sjálfur eftir því í gær að leitarheimildin yrði gerð opinber. Stuðningsmenn hans eru æfareiðir vegna leitarinnar og hafa nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins gengið svo langt að saka Alríkislögregluna um að hyggjast koma fyrir sönnunargögnum á heimili Trump.
Trump varð tíðrætt um vopnabúr Bandaríkjamanna þegar hann var forseti og gortaði oft af því að hafa aðgang að afar leynilegum gögnum um stöðu vopnabirgðanna.
Þá sagði hann við blaðamanninn Bob Woodward að Bandaríkjamenn ættu „ótrúleg“ vopn, vopn sem enginn hefði heyrt um, ekki einu sinni Vladimir Pútín Rússlandsforseti né Xi Jinping, forseti Kína.