Innlent

Til­kynnt um hópá­rás en enginn fundist

Árni Sæberg skrifar
Nokkur erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær og í nótt.
Nokkur erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær og í nótt. Vísir/Vilhelm

Í gær var tilkynnt um hópárás í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem sinnir verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Tilkynnandi kvaðst hafa séð þrjá til fjóra stráka ráðast á einn með höggum og spörkum. Enginn var á vettvangi þegar lögreglu bar að garði og enginn hefur gefið sig fram sem brotaþoli.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu fyrir gærkvöld og nóttina. Hún er nokkuð þéttskrifuð miðað við mánudagskvöld.

Í umdæmi lögreglustöðvar tvö var tilkynnt um tvo menn að slást en ekkert liggur fyrir um hvor þeirra átti upptökin og engar kröfur hafa verið gerðar. Í sama umdæmi var tilkynnt um krakka að sprengja flugelda við skóla. Þeir tóku til fótanna þegar lögregla koma á vettvang.

Í umdæmi lögreglustöðvar eitt var tilkynnt um skemmdarverk í skóla. Þar hafði rúða verið brotin en ekki liggur fyrir hvort um tilraun til innbrots hafi verið að ræða.

Nokkuð var um umferðaróhöpp í gær. Tilkynnt var um árekstur reiðhjóls og bifreiðar sem olli minniháttar meiðslum og umferðaróhapp þar sem annar ökumanna stakk af frá vettvangi. Þar urðu engin meiðsli.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir sem reyndust ekki með ökuréttindi, annar hafði tapað þeim og hinn aldrei öðlast. Þá voru tveir handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×