Preston spilar í ensku B-deildinni og gerði í gær markalaust jafntefli við Watford á heimavelli sínum, Deepdale. Liðið hefur enn ekki fengið á sig mark í deildinni eftir fimm leiki, sem þykir nokkuð afrek.
Á móti kemur að Preston hefur aðeins skorað eitt mark í leikjunum fimm. Liðið hefur því gert fjögur markalaus jafntefli og unnið einn leik, gegn Luton Town í þriðju umferð, 1-0, þar sem Bradley Potts skoraði eina mark liðsins í deildinni til þessa.
1 - Preston North End have only scored once in their first five league games this season, while they re yet to concede a goal this is the fewest goals ever scored in a team s first five games of an English Football League campaign. Starved.
— OptaJoe (@OptaJoe) August 20, 2022
Tölfræðiveitan Opta vekur athygli á því að þetta er met í ensku deildarkeppninni. Aldrei hafa eins fá mörk verið skoruð í fyrstu fimm leikjum félags á Englandi, sama hvaða stigs deildarkeppninnar er litið til.
Þá þykir þetta einnig athyglisvert í ljósi þess að Preston vildi blása til sóknar þegar það réði þjálfara liðsins, Ryan Lowe, til starfa í fyrra. Sá hefur ávallt þótt sóknarþenkjandi þjálfari sem vill keyra yfir andstæðinga. Sjálfur hefur hann sagt Pep Guardiola, þjálfara Manchester City, og Jurgen Klopp, þjálfara Liverpool, auk æskuvinar síns Steven Gerrard, vera sínar helstu fyrirmyndir.