Fótbolti

Villarreal með fullt hús stiga eftir útisigur gegn Atlético Madrid

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Yeremi Pino skoraði markið sem skildi liðin að í kvöld.
Yeremi Pino skoraði markið sem skildi liðin að í kvöld. Diego Souto/Quality Sport Images/Getty Images

Villarreal hefur nú unnið báða leiki sína í upphafi tímabils í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að liðið vann 0-2 útisigur gegn Atlético Madrid í kvöld.

Fyrri hálfleikur var heldur bragðdaufur og hvorugu liðinu tókst að brjóta ísinn. Staðan var því enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks og gengið var til búningsherbergja.

Það var svo ekki fyrr en að rétt rúmlega stundarfjórðungur var til leiksloka að gestirnir náðu loks að skora fyrsta mark leiksins þegar Yeremy Pino kom boltanum í netið.

Heimamenn þurftu svo að spila seinustu mínútur leiksins manni færri eftir Nahuel Molina fékk að líta beint rautt spjald á sjöttu mínútu uppbótartímans. Gestirnir nýttu sér liðsmuninn og Gerard Moreno tvöfaldaði forystu Villarreal með seinustu spyrnu leiksins og niðurstaðan því 0-2 sigur gestanna.

Villarreal er nú með sex stig eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins og liðið hefur ekki enn fengið á sig mark. Liðið situr í þriðja sæti deildarinnar , en Atlético Madrid er hins vegar enn með þrjú stig eftir leik kvöldsins í sjöunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×