„Selfoss spilaði miklu betur en við í kvöld. Ég lofaði skemmtilegum leik í viðtali fyrir leik en svo var ekki og mér fannst þetta leiðinlegur og lélegur leikur hjá okkur,“ sagði Gunnar Magnús og hélt áfram.
„Mér fannst vera mikið andleysi í okkar leik sem ég á erfitt með að skilja. Við vorum í vandræðum í vikunni þar sem við lentum í meiðslum og náðum ekki að æfa af sama krafti og í síðasta leik sem endurspeglaðist í þessum leik.“
Brenna Lovera kom Selfossi yfir strax á þriðju mínútu og átti Keflavík í miklum vandræðum með að svara því.
„Það er alltaf vont að fá á sig mörk og leikskipulagið breytist þegar maður fær á sig mark snemma. Við áttum bara ekki möguleika í þessum leik og ef það væri ekki fyrir markmanninn okkar þá hefðum við tapað stærra.“
„Þrátt fyrir að Selfoss fór mikið upp hægri kantinn sýndi Sigurrós [Eir Guðmundsdóttir] mikinn dugnað í vinstri bakverðinum og gaf ekkert eftir. Aðrar í liðinu hefðu mátt fylgja hennar fordæmi.“
Gunnar hefði viljað sjá Keflavík halda betur í boltann marki undir sem hefði gefið liðinu tækifæri á að jafna leikinn.
„Við náðum ekki að halda nógu vel í boltann og þegar við unnum boltann þá misstum við hann strax aftur þegar Selfoss setti okkur undir pressu. Þetta var bara bitlaust og lélegt,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson að lokum.