Tyrknesk yfirvöld heimiluðu fólki að sækja rafrænt um nafnabreytingu, en það þurfti að gera í persónu áður. Nýlega var hins vegar tilkynnt að rafræna leiðin yrði aðeins opin fólki fram til aðfangadags, 24. desember næst komandi.
Eftir að sú tilkynning fór í loftið rigndi inn umsóknum og þá var eitt nafn sérstaklega vinsælt. 19.756 manns sóttu um að breyta nafni sínu í Fatih Terim, en sá er mikil goðsögn í tyrkneskum fótbolta, sérstaklega hjá stuðningsmönnum Galatasaray.
Hinn 68 ára gamli Terim lék 327 leiki fyrir félagið, auk 51 landsleiks fyrir Tyrkland, og þá hefur hann stýrt landsliði Tyrklands þrívegis (1993-1996, 2005-2009, 2013-2017) og stýrt Galatasaray fjórum sinnum (1996-2000, 2002-2004, 2011-2013, 2017-2022).
Hann stýrði Galatasaray til átta tyrkneskra meistaratitla á ferli sínum, vann UEFA-bikarinn og þá stýrði hann Tyrkjum í undanúrslit á EM 2008.
Líklegt verður að þykja að stuðningsmenn Galatasaray séu fjölmennir á meðal þeirra tæplega tuttugu þúsund Tyrkja sem vilja bera nafn goðsagnarinnar.