Fótbolti

Kristall Máni frá í hið minnsta sex vikur vegna axlar­brots

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristall Máni í leik með Víkingum fyrr í sumar. Hann er nú leikmaður Rosenborg í Noregi.
Kristall Máni í leik með Víkingum fyrr í sumar. Hann er nú leikmaður Rosenborg í Noregi. Vísir/Hulda Margrét

Kristall Máni Ingason komst á blað í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta um liðna helgi er hann skoraði tvívegis í 4-3 tapi Rosenborg gegn Tromsö. Því miður fyrir Kristal Mána þá meiddist hann í leiknum og verður frá næstu sex vikurnar hið minnsta.

Hinn tvítugi Kristall Máni var í fyrsta sinn í byrjunarliði Rosenborg er liðið heimsótti Tromsö. Segja má að þessi lunkni framherji hafi nýtt tækifærið fullkomlega en hann skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik, það síðara úr vítaspyrnu.

Samkvæmt heimildum Vísis þá meiddist Kristall Máni er hann skoraði fyrra mark sitt í leiknum á 23. mínútu. Hann skorar þá af stuttu færi en þarf að hoppa yfir markvörð Tromsö og lendir á stönginni. Við höggið þá axlarbrotnaði Kristall Máni en hann fór þó ekki af velli. Nokkrum mínútum síðar skoraði hann annað mark sitt í leiknum og það var svo ekki fyrr en á 74. mínútu sem framherjinn fór af velli.

Samkvæmt heimildum Vísis mun Kristall Máni ekki spila meira næstu vikurnar en um er að ræða gríðarlegt högg fyrir leikmanninn sjálfan, Rosenborg og svo U-21 árs landslið Íslands sem mætir Tékklandi í lok september í umspili um að komast á lokamót EM. 

Kristall Máni var mikilvægur hlekkur í tvöföldum sigri Víkings síðasta sumar og var valinn besti ungi leikmaður Bestu deildarinnar. Hann var jafnvel betri í sumar og keypti norska stórliðið Rosenborg hann um miðjan júlí mánuð. Hann þarf nú að bíta í það súra epli að sitja á hliðarlínunni og fylgjast með félögum sínum spila næstu vikurnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Rosenborg vann í frumraun Kristals Mána

Kristall Máni Ingason spilaði sinn fyrsta leik fyrir Rosenborg í Noregi er liðið vann 2-1 sigur á HamKam í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×