Eftirlitsnefnd stofnunarinnar kom til Zapozhzhia í gær til að meta aðstæður. Rafael Grossi formaður nefndarinnar sagði í gærkvöldi, eftir að hafa verið í kjarnorkuverinu í nokkra klukkutíma, að aðstæður hafi verið erfiðar og þeir hafi heyrt í skothríð óþægilega nálægt verinu. Reuters greinir frá.
Rússneskar hersveitir náðu kjarnorkuverinu á sitt veld stuttu eftir að þær réðust inn í Úkraínu í lok febrúar. Margir hafa haft miklar áhyggjur af stöðu kjarnorkuversins og því að sprengja lendi á því og leiði til stórkostlegs kjarnorkuslyss.
Sprengjur falla daglega í nágrenni við verið, sem yfirvöld í Moskvu og Kænugarði kenna hvort öðru um. Úkraínsk yfirvöld saka Rússa um að nota kjarnorkuverið til þess að skýla hersveitum sínum, sem Moskva hefur tekið fyrir þrátt fyrir að vilja ekki kalla hersveitir sínar heim. Úkraínskir starfsmenn halda enn til í verinu til að sjá um eðlilegan gang starfseminnar en rússneskar hersveitir halda þeim í gíslingu.
Eftirlitsnefndin sneri aftur á úkraínskt yfirráðasvæði að lokinni skoðun í gær. Grossi sagði að augljóst væri að byggingin hafi orðið fyrir hnjaski ítrekað, sem mætti alls ekki halda áfram. Sérfræðingar á hans vegum verða áfram í kjarnorkuverinu til að tryggja öryggi þess.
Grossi sagðist hafa fengið að skoða allt verið, meðal annars stjórnstöðvaherbergi og farið hafi verið yfir viðbragðsáætlanir. Nefndin þurfi nú að leggjast yfir öll gögn til að ljúka starfi sínu.
Hann segir að nefndin hafi heyrt sprengingar og skothríð á meðan hún dvaldi í kjarnorkuverinu en fresta þurfti för hennar frá því vegna sprengjuregns í nágrenninu. Nefndin hafi haft miklar áhyggjur en slökkva þurfi á einum kjarnaofninum í gær vegna sprenginga.