Viðskipti innlent

Lilja kynnti Ísland fyrir Netflix

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá fundi Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, með forsvarsmönnum Netflix.
Frá fundi Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, með forsvarsmönnum Netflix. Stjórnarráðið

Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði með fulltrúum bandarísku streymisveitunnar Netflix í Los Angeles í Bandaríkjunum á dögunum.

Á vef Stjórnarráðsins segir að umgjörð kvikmyndagerðar á Íslandi og hækkaðar endurgreiðslur vegna kostnaðar í kvikmyndagerð hafi verið umfjöllunarefni fundarins.

Lilja hafi farið yfir samþykktar breytingar á lögum um endurgreiðslur framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð sem fela í sér hækkun úr 25 prósent í 35 prósent að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Yfirlýst markmið breytinganna er að laða stærri erlend kvikmyndaverkefni að Íslandi.

Þá kynnti Lilja sér einnig starfsemi Netflix sem hefur á undanförnum árum verið umfangsmikið í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Fundur Lilju er hluti af ferð hennar til Los Angeles þar sem markmiðið er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×