Í fréttatilkynningu frá fjölskyldu Magnúsar segir að hann hafi fæðst þann 20. febrúar árið 1928 þeim Guðmundi Nordahl trésmiði og Guðrúnu Pálsdóttur húsmóður.
Hann hafi farið í sitt fyrsta flug árið 1944 á svifflugu með útsýni yfir Esjuna og tekið sína fyrstu flugtíma á Stearman og blindflugsáritun frá breska flughernum á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1946 hafi hann farið í flugnám til Englands, með togara, og útskrifast þaðan sumarið 1947.
Magnús hóf störf hjá Loftleiðum til reynslu sumarið 1947, en fékk síðan fastráðningu 1. júní 1948 og starfaði hjá Loftleiðum í yfir 39 ár, eða til febrúar 1991. Magnús starfaði einnig í skamman tíma fyrir BOAC (British Overseas Airways Corporation), sem var hluti af British Airways í miðausturlöndum, þegar flugrekstur á Íslandi gekk ekki sem skyldi.
Frumkvöðull í listflugi
„Óhætt er að segja að hann hafi verið frumkvöðull í listflugi á Íslandi og var hann öðrum flugmönnum hvatning til að stunda listflug og alltaf tilbúinn að miðla af reynslu sinni og kunnáttu sem hann bjó yfir í miklu mæli. Hann keppti oft í listflugi og varð Íslandsmeistari fimm sinnum, fyrst árið 1996 og síðast árið 2001. Sýndi hann oft listflug á flugdeginum á Reykjavíkurflugvelli og síðast árið 2017 þegar hann var 89 ára gamall. Hann flaug listflug til ársins 2020 þegar hann var orðinn 92 ára gamall. Flugið var hans eina áhugamál því í flugvél var hann frjáls eins og fuglinn eins og var svo oft haft eftir honum,“ segir í tilkynningunni.
Eiginkona Magnúar var María Sigurðardóttir Norðdahl heildsali en hún lést árið 2017. Börn Magnúsar eru Sigurður, Guðrún, Guðmundur, Magnús Steinarr og Jóna María, og eru barnabörn tíu, og barnabarnabörnin átta.