Leó Snær Pétursson jafnaði fyrir Stjörnuna á síðustu andartökum leiksins eftir að Lárus Helgi Ólafsson í marki Fram hafði varið en Framarar misst fremur klaufalega af frákastinu. Lokatölur 24-24 en Framarar geta nagað sig í handarbökin því þeir voru þremur mörkum yfir og tveimur leikmönnum fleiri þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
„Þegar það eru 2-3 sekúndur eftir þá verða menn náttúrulega bara að bíða og taka frákast, við þurfum að læra af þessu því þetta er dýrt. Það er hiti í leiknum og hátt spennustig og við viljum keyra og menn eru innstilltir á það, ég er svo sem ánægður með það, menn vilja alltaf keyra. Það vantaði aðeins meiri klókindi að sitja í horninu og taka frákast,“ sagði Einar við Vísi strax eftir leik í kvöld.
Bæði lið áttu langa kafla í leiknum þar sem þau voru í vandræðum sóknarlega, gerðu mikið af tæknilegum mistökum og misstu boltann klaufalega.
„Ég er sammála, mér fannst þetta bara ekkert sérstakur handboltaleikur að öðru leyti en því að hann var spennandi og margt að gerast. Það var lélegt tempó í þessum leik og höktandi sóknarleikur. Vörn og markvarsla var svo sem í lagi í dag en við getum spilað betur,“ sagði Einar að endingu.