Phillips kostaði Man City 42 milljónir punda en hann hafði gert gott mót með Leeds United eftir að liðið komst aftur upp í ensku úrvalsdeildina. Einnig var Phillips orðinn lykilmaður hjá Englandi en nú virðist sem Gareth Southgate þurfi að finna nýjan mann til að spila á miðjunni þar sem Phillips dró sig út úr landsliðshópnum fyrir leikina sem framundan eru gegn Ítalíu og Þýskalandi í Þjóðadeildinni.
Í enskum fjölmiðlum er greint frá því að Phillips gæti þurft að fara í aðgerð á öxl til ná fullum bata en slík aðgerð myndi setja sæti hans í landsliðinu í mikla hættu þar sem ekki er líklegt að hann verði búinn að jafna sig áður en liðið kemur saman fyrir HM.
hinn 26 ára gamli Phillips á að baki 23 A-landsleiki og var valinn besti leikmaður landsliðsins á síðasta ári. Hann hefur ekki enn byrjað leik fyrir City og raunar aðeins komið sögu í þremur leikjum.
Nú hefur hann dregið sig úr landsliðshópnum en spurningin er hvort City sé tilbúið að leyfa leikmanninum að jafna sig í von um að komast á HM og fara svo í aðgerð í upphafi næsta árs eða hvort það vilji að fjárfesting þeirra upp á 42 milljónir punda fari í aðgerð sem fyrst og hjálpi liðinu að berjast um þá titla sem eru í boði.