Víða er reiknað með þrettán til átján metrum á sekúndu við suðvestur- og vesturströndina í fyrstu, en annars suðlæg átt, fimm til þrettán metrar á sekúndu. Má reikna með að lægi heldur á morgun.
Á vef Veðurstofunnar segir að þá verði hlýtt miðað árstíma og spár geri ráð fyrir allt að átján stiga hita norðaustantil í dag og á morgun.
Spár gera ráð fyrir áframhaldandi lægðagangi í kringum landið eftir miðja viku, en engin lægðanna virðist sérlega haustleg.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Sunnan 3-10 m/s, hvassast sunnantil og dálítil væta, en léttir til norðaustan og austanlands. Bætir í úrkomu sunnan- og vestantil um kvöldið og þykknar upp austanlands. Hiti 10 til 16 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu.
Á miðvikudag: Suðlæg eða breytileg átt 3-8 og sums staðar skúrir sunnantil en rigning austantil fram undir hádegi. Yfirleitt léttskýjað um landið norðanvert. Hiti 8 til 13 stig.
Á fimmtudag: Vestlæg átt, 3-8 en norðlægari með norðurströndinni. Dálítil rigning, en þurrt og bjart suðaustanlands. Hiti 5 til 12 stig, mildast á Suðaustur- og Austurlandi.
Á föstudag (haustjafndægur): Norðvestan- og vestanátt, 8-13 m/s. Dálitlar skúrir nyrst í fyrstu annars víða bjartviðri. Hiti 6 til 12 stig, mildast suðaustanlands.
Á laugardag: Útlit fyrir vaxandi suðvestanátt með talsverðri rigningu og hlýnandi veðri.
Á sunnudag: Líkur á vestlægari átt og bjartviðri syðra en snýst í norðanátt norðantil og þykknar upp. Kólnar hratt um kvöldið.