Páll sagði í viðtali við 433.is að hann skilji gremju leikmanna og þjálfara KR en hann hefði frekar viljað fá kvartanir á sitt borð heldur en að lesa um þær í fjölmiðlum.
Hildur Björg svaraði frétt 433 á Twitter. „Kannski betra að mæta á leiki áður en þú tjáir þig um þetta og segir að þetta hafi ekki komið upp á þitt borð fyrr,“ skrifaði Hildur, sem á þar væntanlega við að kvartanir leikmanna KR hafi komið á borð Páls áður.
Kannski betra að mæta á leiki áður en þú tjáir þig um þetta og segir að þetta hafi ekki komið upp á þitt borð fyrr… https://t.co/Py2vfVVfwM
— Hildur Björg (@HildurBjorgK) September 19, 2022
Þetta mál á allt rætur sínar að rekja í skort á sjálfboðaliðum á leik KR og Selfoss í Bestu-deild kvenna í gær. Þar þurfti Hannah Tillet að fara meidd af velli en engar sjúkrabörur eða réttir sjálfboðaliðar voru þá til staðar.
Í viðtali við Vísi eftir leikinn sagði Christopher Harrington, annar að þjálfurum KR, að félagið yrði að sýna stelpunum virðingu og þá myndi það skila sér á vellinum.
„Í dag voru engar sjúkrabörur fyrir meiddan leikmann. Ef þetta væri í karla bolta þá væri þetta ekki neitt mál. Það eru ýmsir litlir hlutir sem að í kvenna bolta skipta miklu máli. Ef þú lætur konum líða eins og þær skipti máli og að þær finni fyrir virðingu þá skilar það sér á vellinum. Aðstæðurnar sem okkar stelpur eru í og miðað við það sem þær gefa á vellinum, vitandi það sem ég veit, þá er frábært að sjá það sem þær gera,“ sagði Harrington.
Í viðtali við Stöð 2 í dag sagðist Páll formaður sinna nær öllum störfum sjálfboðaliða á leikjum KR að vallarþul frátöldum. Formaðurinn segir skort á sjálfboðaliðum m.a. endurspeglast í slæmu gengi liðsins.
KR tapaði leiknum á móti Selfoss 3-5 og féll þar með úr Bestu-deildinni.