Conte gerði Juventus að ítölskum meisturum á öllum þremur tímabilum sínum sem stjóri félagsins. Hann hætti hjá Juventus sumarið 2014 því honum þótti hann ekki fá nægan stuðning frá Andrea Agnelli, æðsta presti hjá félaginu.
Síðan þá hefur samband þeirra Contes og Agnellis stirðnað enn frekar. Conte sýndi Agnelli meðal annars löngutöng í leik Inter og Juventus í fyrra.
Ef ekki væri fyrir deilur þeirra hefði Conte líklega þegar tekið við Juventus á nýjan leik. Fyrir nokkrum árum sagðist hann eiga óklárað verk eftir hjá Gömlu konunni.
Nedved reyndi að fá Conte aftur til Juventus en Agnelli lagðist gegn því. Tékkinn er samt ekki búinn að gefast upp og trúir því að hann geti fengið Conte til Juventus þegar samningur hans við Juventus rennur út á næsta ári.
Max Allegri situr í heitu sæti en Juventus hefur byrjað tímabilið illa og aðeins unnið tvo af níu leikjum sínum í ítölsku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu. Tottenham hefur aftur á móti byrjað tímabilið vel og er enn ósigrað í ensku úrvalsdeildinni.
Eftir að Conte hætti hjá Juventus tók hann við ítalska landsliðinu. Hann stýrði síðan Chelsea og Inter. Undir stjórn Contes varð Inter ítalskur meistari 2021 og rauf þar með níu ára einokun Juventus á titlinum.