Lögregla boðaði til blaðamannafundar í gær vegna málsins en rannsóknin er sögð á frumstigum. Lagt var hald á fjölda skotvopna, síma og tölva, sem nú verður rannsakaður. Tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, annar í viku og hinn í tvær vikur.
Fjallað er um málið á fréttavef CNN, einni víðlesnustu fréttasíðu heimsins. Í frétt CNN er lögð áhersla á að málið sé fordæmalaust hér á landi. Rætt er við Gunnar Hörð Gunnarsson, samskiptastjóra ríkislögreglustjóra þar sem haft er eftir honum að lögreglan hér á landi hafi komið í veg fyrir mögulega hryðjuverkaárás.
Frétt CNN er stutt þar sem helstu atriði málsins eru reifuð. Það sama er ekki hægt að segja um frétt breska dagblaðsins The Guardian, þar sem fjallað er um málið á ítarlegri hátt. Sú frétt byggir að hluta til á frétt fréttaveitunnar AFP um málið sem farið hefur víða í erlendum fjölmiðlum.
Í frétt Guardian er farið yfir ummæli yfirlögregluþjónanna Karls Steinars Valssonar og Gríms Grímssonar á blaðamannafundinum í gær. Það er einnig vísað í fréttir gærdagsins um að mennirnir sem handteknir voru tengist mögulegum norrænum öfgahreyfingum. Í frétt Guardian er sérstaklega minnst á Norðurvígi og að samtökin hafi náð fótfestu hér á landi að undanförnu. Samtökin sjálf hafa þó sagt að þau tengist málinu ekki.