Handbolti

Evrópudeildin í handbolta stækkar og opnar á meiri möguleika fyrir íslensk lið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslendingalið SC Magdeburg tryggði sér sigur í Evrópudeildinni í vor.
Íslendingalið SC Magdeburg tryggði sér sigur í Evrópudeildinni í vor. Uwe Anspach/picture alliance via Getty Images

Evrópudeild karla í handbolta mun frá og með næsta tímabili stækka umtalsvert, en þá munu 32 lið fá sæti í riðlakeppninni í stað 24.

Þetta verður ekki eina breytingin sem gerð verður á fyrirkomulagi keppninnar, en í stað þess að lið fari beint upp úr riðlinum í átta liða úrslit verður tekinn upp milliriðill eins og handboltamótum sæmir.

Fjölgun liða í Evrópudeildinni mun gefa íslenskum liðum aukinn möguleika á þátttöku. Í stað þess að 12 lið fái beint sæti í riðlakeppninni munu nú 16 lið frá 16 mismunandi þjóðum fá slík sæti. Hin 16 liðin munu svo þurfa að vinna sér inn sæti í gegnum forkeppni.

Eins og áður segir munu liðin nú fara í gegnum milliriðil eftir að riðlakeppninni lýkur þar sem efstu tvö liðin í hverjum riðli munu vinna sér inn sæti í milliriðli. Þá gefur það augaleið að með fjölgun liða þarf að fjölga riðlum og í stað þess að leiknir verið fjórir sex liða riðlar verða nú leiknir átta fjögurra liða riðlar.

Milliriðlarnir verða svo fjórir talsins og munu fjögur lið leika í hverjum milliriðli. Þau lið sem vinna milliriðlana vinna sér inn sæti í átta liða úrslitum, en liðin sem hafna í öðru og þriðja sæti munu berjast innbyrðis um seinustu fjögur lausu sætin í átta liða úrslitum.

Þegar átta lið hafa unnið sér inn sæti í fjórðungsúrslitum tekur hefðbundin útsláttarkeppni við eins og verið hefur undanfarin ár í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×