Heimildarmenn þýska blaðsins Tagesspiegel innan þýsku ríkisstjórnarinnar hafa áhyggjur af því að Nord Stream 1 og 2 gasleiðslurnar eigi eftir að tærast og skemmast varanlega ef sjór kemst inn í þær áður en hægt er að gera við þær.
Þýska varnarmálaráðuneytið staðfesti í morgun að sjóherinn tæki þátt í rannsókninni. Eftirlit á þýsku hafsvæði verið aukið og varnir strandlengjunnar við Norðursjó og Eystrasalt efldar, að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT. Þá verða frekari öryggisráðstafanir gerðar við neðansjávarfjarskiptastrengi og gasleiðslur.
Evrópusambandið telur að skemmdarverk hafi verið unnin á gasleiðslunum en jarðskjálftanemar námu tvær neðansjávarsprengingar í Eystrasalti í gær. Ráðamenn þar hafa þó ekki sakað rússnesk stjórnvöld beint um að standa að baki þeim.
Jarðgas hefur verið bitbein Rússa og Evrópusambandsins um nokkurt skeið. Evrópusambandið hefur sakað stjórnvöld í Kreml um að nota gasið sem vopn gegn vesturlöndum. Nord Stream 1 hefur verið lokuð frá því í ágúst. Rússar segja það vegna viðhalds en Evrópuríki sökuðu þá um að stöðva flæði gass til að grafa undan samstöðu þeirra með Úkraínu.
Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, segist með böggum hildar yfir lekunum. Ekki sé hægt að útiloka vísvitandi árás á leiðslurnar.