Handboltafólk hefur notað harpix svo lengi sem elstu menn muna. Klístrið er notað til að ná betra gripi á boltanum og er handboltafólk almennt hlynnt notkun þess og getur varla hugsað sér að spila handbolta án klístursins.
Það virðist þó vera í þróun að útrýma harpixinu, handboltafólki til ama. Forseti Alþjóða handknattleikssambandsins (IHF), Hassan Moustafa, hefur unnið að því að gera íþróttina harpixlausa. Boltar sem eru sérstaklega hannaðir til þess að þurfa ekki að nota harpix eru nú þegar komnir í umferð.
Svava Kristín Grétarsdóttir kíkti á æfingu hjá unglingalandsliði Íslands þar sem stelpurnar sem hafa prófað harpixlausa boltann gátu svarað nokkrum spurningum um hvort lífið án klístursins væri framtíðin í handboltanum. Flestar voru þær sammála því að harpixlausi boltinn væri ekki málið.
„Lélegt,“ „ömurlegt,“ „hrikalegt“ og „pirrandi“ voru algengustu orðin þegar stelpurnar voru spurðar út í það fyrsta sem þær hugsuðu um þegar harpixlausi boltinn var nefndur.
Þær voru sammála því að handbolti án klístursins væri í raun ekki handbolti og að án þess væru skot og sendingar mun verri. Þrátt fyrir gott gengi stelpnanna á HM í sumar voru þær vissar um að þeim hefði gengið enn betur ef harpixið hefði verið í notkun.
Þrátt fyrir þessi ummæli stelpnanna um harpixlausa boltann virtist Svava þó vera hrifin af honum.
„Stelpurnar eru ekki hrifnar af harpixlausum bolta, en ég elska þetta. Spurning hvort maður taki skóna af hillunni, hver veit?“ grínaðist Svava í lok innslagsins, en það má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.