Handbolti

Áhorfandi ruddist inn á og reif í Einar Braga: „Á að banna þennan gæja“

Sindri Sverrisson skrifar
Það sauð upp úr í lokin á leik FH og Fram í Kaplakrika.
Það sauð upp úr í lokin á leik FH og Fram í Kaplakrika. Stöð 2 Sport

„Það eru leikendur í þessari klippu sem eiga ekkert heima á handboltavelli,“ sagði Stefán Árni Pálsson í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport, þar sem rýnt var í myndbönd af látunum í Kaplakrika í lok leiks FH og Fram. Áhorfandi fór þar inn á völl og reif í leikmann.

Leikur liðanna, í Olís-deild karla, var mikill spennuleikur og honum lauk með 25-25 jafntefli. Fram fékk aukakast á lokasekúndunni en skot Þorsteins Gauta Hjálmarsson fór ofan á höfuð Birgis Más Birgissonar sem stóð í varnarveggnum.

Við þetta sauð aðeins upp úr eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan, og komu gæslumenn til að róa leikmenn niður.

Sá sem fór þó lengst yfir strikið var ekki leikmaður heldur áhorfandi sem í fyrstu virtist á leið út úr salnum í Kaplakrika en sneri við, óð inn á völl og reif einhverra hluta vegna harkalega í Einar Braga Aðalsteinsson, leikmann FH.

 Það mátti sjá bæði í útsendingu Stöðvar 2 Sports og í myndbandi frá áhorfanda sem sýnt var í Seinni bylgjunni, en brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan - Læti í Kaplakrika

Athæfi áhorfandans, sem klæddur var bláleitri skyrtu, vakti litla kátínu hjá sérfræðingum Seinni bylgjunnar.

„Drullaðu þér bara út,“ sagði Theodór Ingi Pálmason og var mikið niðri fyrir.

„Þetta á náttúrulega bara ekki að sjást. Þessi maður fer ekki aftur í Krikann. Ég verð reiður að sjá þetta,“ sagði Theodór og Stefán Árni tók í sama streng:

„Hann rífur þarna í Einar Braga. Ég veit ekki hvað hann ætlaði að gera við hann. Þarna eru handboltamenn inni á handboltavelli en þetta á ekki að sjást.“

Theodór ítrekaði þá að áhorfandinn ætti skilið bann:

„Það er eitt þegar leikmenn og þjálfarar, þátttakendur leiksins, eru þarna. En þegar áhorfendur eru komnir þarna að rífa í leikmenn… það á að banna þennan gæja.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×