Rafmagnið datt út á stórum hluta miðbæjarins, Vesturbæjar og Granda síðdegis í gær. Bilunin hafði miklar afleiðingar fyrir rekstraraðila á svæðinu.
„Þetta hafði bara mjög mikil áhrif. Við töpuðum mikilli sölu,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, einn af eigendum veitingastaðarins Brút á Pósthússtræti.

Tilkynning barst frá Veitum seinni partinn í gær þar sem fram kom að rafmagnslaust yrði á öllu svæðinu fram til miðnættis. Ólafur tók þá ákvörðun um að loka staðnum.
„Ég kemst svo að því að þetta er ekki nema hálfur bærinn, þannig að það er fullt af fólki í bænum en svo kemur rafmagnið á sem er náttúrulega bara frábært en það tekur okkur alveg góðan klukkutíma að koma okkur aftur af stað,“ segir Ólafur Örn.
Þetta hafi haft mikil áhrif á reksturinn.
„Ég var búinn að hringja í alla gesti sem áttu pantað og segja þeim að við værum með lokað þannig að við tókum einhverja nokkra inn af götunni. Þau voru bara mjög ánægð með þetta og þetta var frábært en miðað við föstudagskvöld vorum við að taka bara einhverjar örfáar hræður,“ segir Ólafur Örn.
Byggingaframkvæmdir vandamálið
Þetta er í þriðja skiptið á innan við mánuði sem rafmagnslaust verður á einhverjum hluta sama svæðis.
„Í rafmagninu sérstaklega þá er þetta talsvert núna á skömmum tíma. En það sem við teljum almennt að sé að valda þessum truflunum hjá okkur er þessi jarðvinna nálægt strengjunum okkar þar sem er verið að grafa í námunda við þá,“ segir Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður Rafveitu hjá Veitum.
„Þetta er sko bæði náttúrulega þétting byggðar og svo eru framkvæmdir um alla borg. Og við erum almennt í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg og verktaka eins og við getum en við höfum ekki fulla yfirsýn yfir allt sem er í gangi,“ segir Jóhannes.