Erlent

Á­rásir á ó­breytta borgara skelfi­legar

Hólmfríður Gísladóttir, Ellen Geirsdóttir Håkansson og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Mikil eyðilegging er í Kyiv höfuðborg Úkraínu eftir árásir Rússa í dag.
Mikil eyðilegging er í Kyiv höfuðborg Úkraínu eftir árásir Rússa í dag. Getty/Aktas

Vladímír Pútín, forseti Rússlands segir árásir morgunsins hafa verið svar Rússa við árásinni á Kertsj-brúna. Árásinni hafi verið beint að samskipta-, orku- og hernaðarinnviðum Úkraínumanna. 

Sprengingar skóku Kænugarð í morgun, í fyrstu eldflaugaárás Rússa á höfuðborgina í nokkrar vikur. Blaðamaður Financial Times segir sprengjur hafa lent í hjarta borgarinnar, meðal annars á stórum gatnamót nærri Shevchenko-garði, þegar margir voru á ferð en þar er leikvöllur staðsettur. Að minnsta kosti 11 eru látnir og 64 særðir eftir árásina. Guardian greinir frá

Vitaliy Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, sagði í yfirlýsingu á Telegram um klukkan 8.30 að staðartíma að nokkrar sprengjur hefðu lent í miðborginni. Þá segir Associated Press að heyrst hafi í eldflaugunum áður en þær sprungu.

Úkraínska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í morgun að Rússar hafi skotið 75 flugskeytum á Úkraínu en þeim hafi tekist að skjóta 41 þeirra niður. 

Vladímír Pútín, forseti Rússlands ávarpaði þjóð sína í morgun en hann er sagður hafa staðfest að árásir Rússa á innviði Úkraínu séu svar þeirra við árásinni á Kertsj-brúna.  CNN greinir þó frá því að Úkraínumenn hafi ekki enn tekið ábyrgð á árásinni. 

Árás Rússa á Úkraínu hefur verið fordæmd af alþjóðasamfélaginu en hinir ýmsu þjóðarleiðtogar hafa ítrekað stuðning sinn við Úkraínu í kjölfar hennar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segi árásirnar jafngilda stríðsglæpum.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×