Appelsínugular viðvaranir eru enn í gildi á austanverðu landinu, þær síðustu til klukkan níu fyrir hádegi.
Á vef Veðurstofunnar segir að það verði norðan fimm til tíu metrar á sekúndu og bjartviðri vestanlands í dag.
Hiti verður í kringum frostmark víðast hvar, en kólnar í kvöld, einkum í innsveitum.
„Vaxandi suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi í nótt, 10-18 m/s og rigning á morgun. Hægari vindur og þurrt norðaustanlands, en þar fer að rigna seinnipartinn og þá í vestan kalda sunnan- og vestantil. Hlýnandi, hiti 4 til 10 stig seint á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Suðaustan 10-18 m/s og rigning, en hægari og þurrt um landið norðaustanvert fram eftir degi. Lægir vestantil seinnipartinn. Hlýnandi veður, hiti 4 til 10 stig um kvöldið.
Á miðvikudag: Suðvestan 8-13 og skúrir Suðvestan- og vestanlands, en bjartviðri eystra. Hiti 1 til 8 stig.
Á fimmtudag: Austlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og úrkomulítið. Heldur kólnandi.
Á föstudag og laugardag: Norðanátt og él, en þurrt sunnanlands. Hiti kringum frostmark.
Á sunnudag: Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða slyddu norðan- og austantil á landinu.