Þetta kemur fram í frétt AP um málið. Þar kemur fram að þjóðhollir fréttamenn í Rússlandi hafi fagnað árásum sem gerðar voru víða um Úkraínu í gær. Minnst nítján létust í árásunum og hundrað særðust að sögn úkraínskra stjórnvalda. Ríkisfréttamiðlar í Rússlandi sögðu í gær frá því að árásirnar, sem beindust að almennum borgurum, hafi verið tímabært svar við velgengni Úkraínumanna á vígvellinum undanfarnar vikur.
Herinn hafi skort sterkan leiðtoga
Úkraínumenn hafa síðustu vikur náð miklu landsvæði frá Rússum í austur- og suðurhluta landsins og gengi Rússa í stríðinu verið lýst sem vandræðalegu. Svo virðist sem árás, sem Úkraínumenn eru taldir bera ábyrgð á, á Kerch brúnna um helgina hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Brúin hefur verið álitin sem táknmynd hernáms Rússa á Krímskaga árið 2014 en hún var reist árið 2018 og er eina tenging Rússlands við skagann.
Árásin var gerð á aðfaranótt laugardags og sama dag var nýr herforingi skipaður yfir stríðsrekstrinum í Úkraínu, Sergei Surovikin. Hlutverk hans er sagt mikilvægt þar sem rússneska herinn hafi skort einn sterkan leiðtoga.
Pútín orðinn fangi eigin óákveðni
Fram kemur í frétt AP að sérfræðingar séu nú farnir að leiða að því líkum að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé að verða fangi skoðana stuðningsmanna sinna á því hvernig stríðið í Úkraínu eigi að fara. Pútín hafi lítið sem ekkert frumkvæði og hann stóli alltaf meira og meira á stöðu stríðsins hverju sinni og þá sem lýsi grimmustu skoðununum á stríðsrekstrinum í Úkraínu.
„Hræðslan við ósigur er svo sterk, sérstaklega hjá þeim sem eru búnir að sökkva sér algerlega í stríðsreksturinn, að óákveðni Pútins, sérstaklega með rökum hans um að „ekkert sé enn hafið“ og „að hógværar aðgerðir hafi skilað sér“, er orðin að vandamáli,“ skrifaði sérfræðingurinn Tatyana Stanovaya, stofnandi R. Politik, í grein í gær.
Rússneskir fréttamenn gerðu lítið úr árásinni á Kerch brúna um helgina og í gær og sögðu að nú væri kominn tími til að sýna Úkraínumönnum hvað í Rússlandi býr. Þingmaðurinn Sergei Mironov skrifaði á Twitter í gær að nú væri kominn tími til að berjast. Með krafti og jafnvel „grimmd.“
... . ! , . - . ! ! . . ! ! pic.twitter.com/L2IquUdRSY
— (@mironov_ru) October 8, 2022
Í gærmorgun var svo brugðist við ákallinu þegar Rússar gerðu fjölda loftárása á úkraínskar borgir. Árásunum var beint að almennum borgurum, þó Rússar hafi haldið því fram að þær hafi beinst að innviðum Úkraínu. Árásirnar beindust að fimmtán úkraínskum borgum. Minnst nítján létust, yfir hundrað særðust, rafmagnslínur rofnuðu, lestarstöðvar skemmdust og vatnsbirgðir borga skemmdust. Enn eru tæplega hundrað námuverkamenn fastir neðanjarðar í Kryvyi Rih vegna rafmagnsleysis.