Barín er með sætistöluna 56 í lotukerfinu en það finnst aldrei eitt og sér á jörðinni. Einu skiptin sem það má finna í andrúmsloftinu er þegar flugeldum er skotið á loft. Frumefnið fannst hátt í lofthjúpi gasrisanna WASP-76b og WASP-121b sem eru í mörg hundruð ljósára fjarlægð frá jörðinni, hvor í sínu sólkerfinu.
Báðar reikistjörnur eru heitir gasrisar á stærð við Júpíter. Ólíkt stærstu reikistjörnunni í sólkerfinu okkar eru fjarreikistjörnurnar tvær gríðarlega heitar, um þúsund gráður við yfirborðið. Þær eru enda þétt upp við móðurstjörnur sínar og ganga um þær á aðeins einum til tveimur jarðneskum sólarhringum.
Svo framandlegir eru þessir heimar að stjörnufræðinga grunar að járni rigni af himni ofan á WASP-76b þegar járn verður að gufu á þeirri hlið reikistjörnunnar sem snýr alltaf að móðurstjörnunni og blæs yfir á svalari fjærhliðina þar sem járngufan þéttist og fellur sem regn.

Engu að síður kom það stjörnufræðingunum á óvart að finna barín sem er tvisvar og hálfu sinni þyngra en járn hátt í lofthjúpi reikistjarnanna. Þær hafa sterkan þyngdarkraft og því bjuggust vísindamennirnir við því að barín félli hratt niður í neðri lög lofthjúpsins.
„Við bjuggumst ekki við og vorum ekki að leita að baríni sérstaklega og urðum að kanna gaumgæfilega hvort það væri í raun í reikistjörnunum þar sem það hafði aldrei sést áður á fjarreikistjörnu,“ er haft eftir Azevedo Silva, doktorsnema við Porto-háskóla sem fór fyrir rannsókninni, í tilkynningu á vef Evrópsku stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO).
Hópurinn notaði VLT-sjónauka ESO til að efnagreina lofthjúp reikistjarnanna með því að mæla litróf ljóss frá móðurstjörnum reikistjarnanna sem skein í gegnum andrúmsloft þeirra. Grein um rannsóknina birtist í vísindaritinu Astronomy and Astrophysics í dag.
Ekki liggur fyrir hvaða náttúrulega ferli veldur því að barín finnst svo hátt í lofthjúpi reikistjarnanna. Framtíðartækjabúnaður eins og ELT-sjónauki ESO á að hjálpa stjörnufræðingum að rannsaka frekar andrúmsloft stórra og lítilla fjarreikistjarna, ekki aðeins gasrisa eins og þessara heldur einnig bergreikistjarna sem hafa meiri líkindi við jörðina.